*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 17. maí 2018 19:11

Bensínlítrinn hækkað um 12 krónur

Bensínverð hefur hækkað töluvert á undanförnum vikum en þó minnst hjá Costco þar sem lítrinn hefur hækkað um 4 krónur.

Ritstjórn
Bensínverð hefur farið hækkandi að undanförnu.
Haraldur Guðjónsson

Verð á 95 oktana bensíni á flestum bensínstöðvum hérlendis hefur hækkað um 12 krónur á lítrann frá því í byrjun apríl. Þetta kemur fram á vefnum gasvaktinni sem birtir breytingar á eldsneytisverði olíufélaganna.

Lítrinn á 95 oktana bensíni hjá N1 kostar nú 224,8 krónur en kostaði 212,8 krónur í byrjun apríl. Á sama tímabili hefur bensínlítrinn hjá Olís hækkað úr 212,8 krónum í 224,8 krónur.

Costco er eftir sem áður með lægsta dæluverðið og kostar bensínlítrinn 187,9 krónur samkvæmt gasvaktinni en hefur hækkað um 4 krónur síðan í lok mars. Þá er næst ódýrasta dæluverðið hjá Atlantsolíu við Kaplakrika þar sem bensínlítrinn kostar 191,9 krónur.

Ef undan er skilinn dælustöð Atlantsolíu við Kaplakrika hefur bensínlítrinn bæði hjá Atlantsolíu og Orkunni hækkað úr 210,8 krónum í 222,8 krónur frá því í byrjun apríl.

Hækkunin skýrist að líkindum að mestu á hækkandi heimsmarkaðsverði á olíu. Verð á Brent hráolíu hefur hækkað um 25% síðan í mars og náði verð á fatinu 80 dollurum í dag líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun. Hækkunin er að mestu sögð skýrast af ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að slíta kjarnorkuvopnasamningnum við Íran. Búist er við að Bandaríkin hefji viðskiptaþvinganir á ný gagnvart Íran, einu mesta olíuvinnsluríki heims.