Meðalverð á lítra á bensíni á bensínstöðvum landsins að jafnaði hækkað um 15 krónur frá því verð á Brent hráolíu tók að hækka á ný í lok október. Meðalverð hjá stóru eldsneytissölunum hefur hækkað úr um 222 krónum á lítrann í 237 krónur á lítrann frá því í lok október.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur verð á Brent hráolíu hækkað um 67%, úr tæplega 38 dollurum á tunnu í 63 dollara á tunnu frá því í lok október og hefur ekki verið hærra í 13 mánuði. Á sama tíma hefur krónan styrkst um ríflega 9% gagnvart Bandaríkjadal og kostar hver dollari nú 128,3 krónur en kostaði þá 140,6 krónur.

Þó getur munað nokkru á bensínverði hjá stöðvunum, en á höfuðborgarsvæðinu má almennt má segja að verðið fari lækkandi eftir því sem nær dregur bensínstöð Costco í Kauptúni, sem býður eftir sem áður ódýrasta bensínið. Þar hefur bensínlítrinn hækkað úr 182,9 krónum í lok október í 191,9 krónur í dag.

Þannig bjóða Orkan, ÓB, Dælan, Atlantsolía og N1 verð sem eru frá 195,3 til 197,9 krónum á völdum bensínstöðvum líkt og sjá má á vefnum GSMbensín . Almennt verð hjá Olís er hins vegar 238,8 krónur á lítrann, 238,5 krónur hjá N1, 236,5 krónur hjá Orkunni, 236,6 krónur hjá ÓB og 234,6 krónur hjá Atlantsolíu.

Hjá Dælunni kostar bensínlítrinn frá 205 krónum við Fellsmúla og upp í 220,9 krónur í Holtagörðum og við Mjódd ef frá er talin sú bensínstöð sem er næst Costco við Hæðasmára þar sem bensínlítrinn kostar 195,4 krónur.