*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 19. desember 2017 14:14

Bensínlítrinn hækki um 5 krónur

Um áramótin aukast álögur ríkissjóðs af eldsneyti um 11% sem á að skila tæplega 2,8 milljörðum króna í viðbótartekjur.

Ritstjórn
epa

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda mun bensínlítrinn hækka um 5,20 krónur um áramótin, en dísilolían mun hækka um 5,40 krónur að því er Morgunblaðið greinir frá.

Er gert ráð fyrir 2%  hækkun á eldsneytisgjöldunum miðað við verðlagsforsendur á næsta ári, sem þýðir að vörugjöld á bensíni, sem nú eru 26,80 og sérstakt vörugjald sem er 43,25 krónur hækka í 27,35 krónur og 44,10 krónur. 

Olíugjaldið, sem nú er 60,10 krónur hækkar í 61,30 krónur, en ofan á þessar upphæðir mun leggjast virðisaukaskattur. Því má reikna með að bensínlítrinn í sjálfsafgreiðslustöðvum hækki úr 203,90 krónum í 209,10 krónur og lítri af dísilolíu muni hækka úr 195,80 krónur í 201,30 krónur.

Ríflega 28 milljarða tekjur af eldsneytisgjöldum

Á vef FÍB er bent á að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir 10,9% tekjuaukningu frá fjárlagafrumvarpi síðasta árs af eldsneytissköttum, eða samtals um 2.775 milljónum króna. Í heildina eigi vörugjald og sérstakt vörugjald af bensíni sem og olíugjaldið af dísilolíu að skila 28.240 milljónum króna. Helmingshækkun kolefnisgjalds mun þar vega þyngst, eða 1.200 milljónum í viðbótargreiðslur eða samtals 3.500 milljónum króna.

Þessu til viðbótar munu tekjur af bifreiðagjaldi nema 7.450 milljónum króna á næsta ári, sem er hækkun um 300 milljónir króna frá síðasta ári, og svo er gert ráð fyrir að kílómetragjald á vöru- og flutningabíla muni hækka um 110 milljónir upp í 1.100 milljónir króna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 500 milljóna samdrætti í tekjum ríkissjóðs af vörugjöldum af nýskráðum ökutækjum milli ára. Miðast áætlaður samdráttur við fjárlagafrumvarpið, en þar sem bílainnflutningurinn hefur verið mun meiri en áætlað var fyrir árið er samdrátturinn líklega nær 1.800 milljónum króna í rauntekjum. Í heildina er áætlað að tekjurnar verði 7.900 milljónir króna.