Atlantsolía hefur lækkað verð á eldsneytislítranum á bensínstöðinni við Baldursnes á Akureyri til samræmis við verðstefnu sína í Kaplakrika og á Sprengisandi og segist félagið nú bjóða upp á langódýrasta eldsneytislítrann á Norðurlandi.

Viðskiptablaðið sagði frá því á sínum tíma þegar félagið hóf að bjóða sama verðið á Sprengisandi í Reykjavík og félagið hafði boðið í Kaplakrika í Hafnarfirði, næstu sölustöð sinni við sölustað Costco í Kauptúni í Garðabæ sem löngum hefur verið með ódýrasta bensínið á líterinn á landinu.

Bensínlítrinn á Baldursnesi kostar nú 185,5 krónur og dísillítrinn 181,5 krónu, sem er sama verð og á Sprengisandi og í Kaplakrika en almennt listaverð félagsins er í dag 222,7 krónur á lítrann af bensíni og 210,8 krónur á dísillítrann.

Allir viðskiptavinir fá sama eldsneytisverðið á Baldursnesi óháð fríðindakerfum, meðlimagjöldum eða öðrum afsláttarkjörum að því er segir í tilkynningu félagsins. Rakel Björg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Atlantsolíu segir að í kjölfar þess að félagið lækkaði verð á þessum tveimur stöðum í höfuðborginni hafi komið ákall um sambærileg verð frá viðskiptavinum norðan heiða.

„Bensínsprengjan okkar í Kaplakrika og á Sprengisandi hefur fengið frábærar viðtökur og breytti landslaginu á eldsneytismarkaðinum svo um munar neytendum til hagsbóta,“ segir Rakel Björg sem segir nú hægt að ferðast á ódýrasta eldsneyti félagsins landshluta á milli.

„Þó Atlantsolía sé eitt minnsta olíufélag landsins hefur fyrirtækið alltaf verið leiðandi í að sprengja upp eldsneytismarkaðinn og veita stóru olíurisunum aðhald í samkeppninni. Nú er komið að því að bjóða Akureyringum og nærsveitarmönnum  þennan valkost, þ.e ódýrasta eldsneytisverðið og engin afsláttarkjör.“

Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öllum öðrum stöðvum Atlantsolíu en í Kaplakrika, á Sprengisandi og Baldursnesi munu allir fá sama eldsneytisverðið, án afsláttar. Atlantsolía rekur 25 sjálfsafgreiðslustöðvar, átján á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum og sjö á landsbyggðin