Meðalverð á bensíni hefur lækkað undanfarna mánuði og hefur haldist í takt við lækkun á heimsmarkaðsverði og lægri gengisvísitölur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, telur að þetta sýni að aðhald sé til staðar og að um jákvæða þróun sé að ræða. Á sama tíma hefur bensínsala minnkað og sparneytnum bílum á götum Íslands fjölgað. Bílasala hefur í raun aukist um 50% frá því í fyrra.

Samkvæmt FÍB var meðalverð á bensíni í apríl 266,90 krónur, en 244,40 í júlí. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins kemur þetta heim og saman við heimsmarkaðsverð sem hefur lækkað úr 111,70 krónum í apríl niður í 94,40 krónur í júlí. Meðalálagning á hvern lítra hefur einnig farið lækkandi, úr 36,30 krónum í apríl í 35,80 krónur í júlí.