Kjaradeila Flóabandalagsins og VR við Samtök atvinnulífsins er í hnút. Upp úr viðræðum slitnaði á mánudaginn og samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Ríkissáttasemjara hefur nýr fundur í deilunni ekki verið boðaður.

Að óbreyttu hefjast tímabundnar verkfallsaðgerðir þessara félaga á fimmtudaginn og allsherjarverkfall, sem mun ná til um 55 þúsund starfsmanna, hefst laugardaginn 6. júní.

Þann 4. og 5. júní hefjast til að mynda tímabundnar aðgerðir sem munu bitna á olíufélögunum. Starfsmenn bensínstöðva á höfuðborgarsvæðinu eru flestir í Eflingu, sem er eitt af félögunum sem mynda Flóabandalagið. Verslunarstjórar stöðvanna eru í VR. Það er því ljóst að bensínstöðvar loka þessa daga og verða áfram lokaðar ef ekki næst að semja fyrir 6. júní þegar allsherjarverkfallið á að hefjast.

Bílstjórar á olíuflutningabílum eru flestir í Eflingu þannig að eldsneytisflutningar munu líka lamast. Sjálfsalar bensínstöðvanna verða opnir á meðan eldsneyti er í tönkunum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær stefnir líka í að matvöruverslanir loki 2. og 3. júní.

Fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir Flóabandalagsins, VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna:

  • Hópbifreiðafyrirtækið 28. og 29. maí.
  • Hótel, gististaðir og baðstaðir 30. og 31. maí.
  • Flugafgreiðsla 31. maí og 1. júní.
  • Skipafélög og matvöruverslanir 2. og 3. júní.
  • Olíufélög 4. og 5. júní.
  • Allsherjarverkfall 6. júní