Bensín
Bensín
Heimsmarkaðsverð á bensíni hefur hækkað talsvert undanfarnar vikur eftir að hafa farið niður fyrir 1.000 dali á tonn í lok júnímánaðar. Við lokun markaðar í Rotterdam í fyrradag kostaði tonnið af 95 oktana bensíni 1.070 dali samkvæmt upplýsingum á vef breska viðskiptablaðsins Financial Times.

Um er að ræða dægurverð og bensín sem flutt er yfir hafið í tankskipum en verð á bensíni sem flutt er um fljót Evrópu með prömmum er jafnan eitthvað lægra. Verð hefur þó sveiflast þótt hneigðin sé upp á við. Þannig lækkaði tonnið um 10 dali í upphafi vikunnar en hækkaði svo um 20 dali í áðurnefnda upphæð. Bensínverð hefur ekki verið hærra en nú síðan í maí.