Bensínlítri á afgreiðslustöðvum Shell kostar nú 232,9 krónur og lítri af díselolíu kostar 237,8 krónur. Verð hækkaði hjá Shell um 4 krónur í dag. Það sem af er degi hafa aðrar bensínstöðvar ekki hækkað verð hjá sér, að því er fram kemur á gagnaveitunni Keldan.is.

Már Erlingsson, framkvæmdastjóri eldsneytisverðs hjá Skeljungi, segir að hækkunin sé tilkomin vegna hækkandi heimsmarkaðsverðs. Þann 15. mars lækkaði bensínverð hjá öllum olíufélögunum og kostaði þá tonnið af olíu um 942 dollara. Verð í dag er rúmlega 1000 dollarar, segir Már. Hann segir Sekljung, og önnur olíufélög, finna verulega fyrir þeim óstöðugleika sem ríkir á olíumörkuðum og viðkvæmu ástandi á þeim. Már segir að álagning Skeljungs hafi ekki breyst og sé á því bili sem hún hefur verið á.