Bensínverð á Íslandi hefur aldrei verið hærra en nú í krónum talið, samkvæmt gasvaktinni.is.

Hjá N1 er almennt verð á bensíni komið upp í 281,9 krónur á lítrann og hjá Olís er verðið 281,8 krónur. Atlantsolía og ÓB eru með lítrann á 278,9 krónur. Bensínverð hjá Orkunni nemur 278,8 krónum á lítrann. Ódýrast er bensínverðið hjá Costco, 241,9 krónur á lítrann. Þó bjóða flest fyrirtækin lægra verð á hluta bensínstöðva sinna.

Sjá einnig: Olíuverð komið yfir 90 dali á tunnu

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum, en allt jarðefnaeldsneyti á Íslandi er innflutt. Hráolíuverð hefur verið yfir 90 dali á tunnu undanfarnar tvær vikur og hefur ekki verið jafn hátt í sjö ár. Greiningaaðilar spá því að hráolíuverð gæti farið upp fyrir 100 dali á tunnu á þessu ári.

Hærra verð á innfluttu eldsneyti hefur einnig áhrif á verðbólguna sem er ört vaxandi að undanförnu. Samkvæmt spá Íslandsbanka mun eldsneyti hækka um 3,4% milli mánaða.