Bensínverð á Íslandi hefur lækkað um fimmtung frá árinu 2012. Bensínlítrin hefur kostað 221,09 krónur að meðaltali á þessu ári, en verðið var að meðaltali 276,96 krónur á núvirði fyrir þremur árum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir í samtali við Morgunblaðið að eldsneyti sé með stærri útgjaldaliðum heimilanna og því hafi lækkunin jákvæð áhrif á heimilisrekstur. Á móti komi hins vegar að hækkunin hafi verið óvenjubrött fyrir árið 2012.

„Núna erum við í umhverfi þar sem markaðsaðstæður ráða því að verðið er að ganga niður. Það er eitthvað sem við höfum engin áhrif á. Það sem við getum haft áhrif á hér innanlands er fyrst og fremst í gegnum skráð gengi íslensku krónunnar, skattana sem á leggjast og álagningu á markaði hér innanlands,“ segir hann.

Rúmlega helmingur bensínverðs fer beint í ríkissjóð.