Verkfræðistofan VISTA og Bentley Systems hafa gengið frá samningi um kaup Bentley Systems á hugbúnaðarlausninni Vista Data Vision (VDV) af VISTA.

Með kaupunum eignast Bentley Systems allan erlendan rekstur VISTA sem snýr að þróun og sölu VDV.

Starfsemi Verkfræðistofunnar VISTA á Íslandi verður óbreytt og mun stofan áfram nýta Vista Data Vision í sínum verkefnum og þjónusta notendur þess innanlands við sjálfvirka gagnasöfnun og eftirlit. Heiðar Karlsson mun taka við stöðu framkvæmdastjóra VISTA af Þórarni Andréssyni sem mun leiða starfsemi Vista Data Vision undir stjórn Bentley Systems. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VISTA.

Þórarinn Örn Andrésson, framkvæmdstjóri Vista Data Vision:

„Kaup Bentley Systems á Vista Data Vision er gríðarleg viðurkenning á þeirri vinnu sem starfsfólk VISTA hefur lagt á sig við að byggja upp rekstur VDV og gera það að leiðandi vöru á heimsvísu. Við teljum að með því að tengjast Bentley Systems, og þeirra fjölbreytta vöruúrvali, opnist fjölmörg tækifæri að þróa VDV inn á nýja og spennandi markaði."

Heiðar Karlsson, framkvæmdstjóri VISTA:

„Þetta eru spennandi tímar fyrir Verkfræðistofuna VISTA, við sjáum nú fram á að styrkja stöðu okkar sem leiðandi fyrirtæki á sviði sjálfvirkra mælinga sem tryggja öruggan rekstur okkar viðskiptavina.

Tækifærin eru víða og með þessum breytingum verða verkefni stofunnar skýrari og við getum einbeitt okkur af fullum krafti að kjarnastarfseminni, rekstri rauntímaeftirlitskerfa.

Við munum að sjálfsögðu nota VDV í okkar verkefnum áfram og þjónusta viðskiptavini okkar í gegnum hugbúnaðinn í góðu samstarfi við Vista Data Vision. Þessar breytingar munu ekki koma til með að hafa nein áhrif á okkar viðskiptavini. Með sölunni sjáum við fram á að hugbúnaðurinn muni eflast til mikilla muna með hraðari vöruþróun."

Um Verkfræðistofuna VISTA

Verkfræðistofan VISTA var stofnuð 1984 af Andrési Þórarinssyni. Stofan hefur verið leiðandi í rekstri rauntímaeftirlitskerfa á Íslandi. Viðskiptavinir á Íslandi eru meðal annars Landsvirkjun, HS Orka, Veðurstofa Íslands, Landspítali og mörg stærstu sveitarfélög landsins.

Meðal verkefna má nefna umhverfismælingar, orkueftirlit í mannvirkjum, eftirlit með veitukerfum og snjallborgarlausnir, svo sem eftirlit með djúpgámum, loftgæðum og ljósastýringar.

Um Vista Data Vision

VDV hugbúnaðurinn hefur verið í þróun síðustu tvo áratugi og er hannaður til þess að auðvelda eftirlit og meðhöndlun mæligagna.

VDV hefur verið leiðandi í þróun og útgáfu á hugbúnaði sem sérhæfir sig í framsetningu á rauntíma mæligögnum. Hugbúnaðurinn er notaður í yfir 2000 verkefnum víðsvegar um heiminn og birtir gögn daglega frá hundruðum þúsunda nema. Sem dæmi um slík verkefni má nefna vatnsaflsstíflur, gangnagerð og námur víða um heim.

Exxon Mobil, Fugro, SNC Lavalin, Alcoa og Vale eru meðal fjölmargra alþjóðlegra notenda VDV.

Um Bentley Systems

Bentley Systems er leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í hugbúnaðargerð fyrir byggingariðnað með yfir 4.000 starfsmenn og starfsemi í 173 löndum. Fyrirtækið er þekkt fyrir vörur eins og MicroStation, STAAD og AssetWise sem eru í notkun um heim allan. Bentley Systems var skráð á Nasdaq í september á síðasta ári.

Með kaupum á Vista Data Vision og áframhaldandi vöruþróun hyggst Bentley Systems festa sig í sessi sem leiðandi afl á sviði rauntímaeftirlits og interneti hlutanna fyrir byggingariðnað. VDV lausnin mun nýtast Bentley Systems sérstaklega vel í áframhaldandi þróun á iTwin lausnum fyrirtækisins sem gera fyrirtækjum kleift að samþætta allt ferli framkvæmda frá hönnun til viðhalds í eina lausn.