Mercedes Benz hefur neyðst til að innkalla ríflega 103.000 bíla af M-gerð í Bandaríkjunum.

Hér er um að ræða bíla sem framleiddir voru á árunum 1998 og 2003.

Vandamálið felst í klemmu sem heldur við kælislöngu í bílnum. The National Highway Traffic Safety Administration (NHTSA), sem fellur undir bandaríska samgönguráðuneytið, telur að slangan sé ekki nógu traust og ef hún bregst geti það haft áhrif á aflstýri bílsins og jafnvel gert mönnum erfiðara að stýra bílnum. Innköllunin fellur undir ábyrgðarþjónustu framleiðanda.

Ekki er vitað hvað hún kostar fyrirtækið. Líklegt verður að teljast að einhverjir þessara bíla hafi ratað hingað til lands en engar upplýsingar hafa borist um innköllun hér á landi.

Sjálfsagt er fyrir eigendur bíla þessarar gerðar að athuga málið.