Gera má ráð fyrir því að bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing einbeiti sér frekar að því að hefja framleiðslu á Boeing 787-10 flugvélinni og leggi frekari þróun á Beoing 777 vélunum til hliðar.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal en 787-10 er lengri útgáfan af 787-9 Dreamliner vél Boeing sem nú er komin í þjónustu flugfélaga.

Til að gera langa sögu stutta þá hefur Boeing um nokkurn tíma undirbúið frekari þróun á Boeing 777 vél framleiðandans í þeim tilgangi að gera hana sparneytnari. Boeing 777 er mun stærri en Dreamliner vélarnar og gæti þannig þjónustað flugfélögum sem eru að leita að stærri vélum til að sinna lengri flugleiðum. Þá hefur Boeing stefnt að því að gera 777 vélina samkeppnishæfa við nýjustu vél evrópska flugvélaframleiðandans Airbus, A350XWB. Sú vél verður að miklu leyti sett saman úr koltrefjaefnum og verður þannig bæði léttari og sparneytnari en vélar í sömu stærð.

Boeing 787 Dreamliner uppfyllir þau skilyrði að miklu leyti nema hvað að 787-8, sem er sú vél sem þegar hefur verið framleidd, er mun minni. Hins vegar mun 787-10 vélin verða nokkuð stærri og í sambærilegri stærð og Boeing 777-300 (sem er lengri útgáfan af 777 vélinni). Það er þó margslungið að hanna og framleiða lengri útgáfu af 787 Dreamliner og halda um leið þeim eiginleikum hennar um sparneytni sem henni er ætlað að uppfylla.

Frekari þróun á Boeing 777 vélinni hefur farið fram undir vinnuheitinu 777X. Þannig stendur ekki aðeins til að lengja 777-300 vélina heldur miðar þróunin frekar að því að breyta hönnun hennar og prófa vélina með nýrri tegund hreyfla í þeim tilgangi að gera hana sparneytnari.

Boeing 777-300ER vél í litum Emirates.
Boeing 777-300ER vél í litum Emirates.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Boeing 777 í litum Emirates.