Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur úrskurðað að Reykjanesbæ beri skylda til að afhenda þrjá samninga Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar við Thorsil ehf. á grundvelli lögbundins rétt almennings á upplýsingum.

Fjárhagslegir hagsmunir ekki almennum upplýsingarétti framar

Eftir að hafa farið yfir umrædda samninga hafnaði úrskurðarnefndin þeim röksemdum Reykjanesbæjar að þær upplýsingar sem fram kæmu í samningunum vörðuðu svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Thorsil ehf. að leynd um efni samninganna gengi framar þeim rétti.

Taldi úrskurðarnefndin samningana fjalla um umhverfismál í skilningi laga um upplýsingarrétt um umhverfismál, þar sem þeir snúast um þá ráðstöfun Reykjanesbæjar að leigja lóð undir kísilmálsmiðju í bænum.

Samkvæmt úrskurðinum þarf því Reykjanesbær að afhenda kærenda eftirtalda samninga:

  • Samningur um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs kísilverðs Thorsils ehf.
  • Samkomulag um skilmála fyrir lóðarleigusamning á milli Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Thorsil ehf. ásamt viðhengis 1 við samninginn
  • Lóðar- og hafnarsamningur milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf. ásamt viðaukum A, B, I, II og III við samninginn.