Endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton í Bretlandi hefur verið gert að afhenda gögn sem efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (Serious Fraud Office, SFO) notaði í rannsókn sinni á Tchenguiz bræðrunum. Sú rannsókn féll um sjálfa sig og hafa bræðurnir höfðað 300 milljóna punda skaðabótamál gegn SFO.

Dómari í málinu kvað upp úrskurð í dag um að afhenda bæri gögnin, en þetta getur haft töluverð áhrif á vinnuaðferðir SFO, því samkvæmt frétt Financial Times hefur embættið oft reitt sig á gögn unnin af þriðja aðila, eins og í þessu tilviki.

Um er að ræða skýrslur um meintan þátt Tchenguiz bræðra í falli Kaupþings og hefur Grant Thornton alltaf haldið því fram að fyrirtækið mætti ekki birta skýrslurnar vegna trúnaðar við viðskiptavini. Hefur fyrirtækið reyndar hótað SFO málsókn vegna þess hvernig embættið nýtti skýrslunar í rannsókninni.

SFO hefur lengi haldið því fram að starfsmenn embættisins hafi misskilið skýrslur Grant Thornton og þar sé að finna ástæðuna fyrir því að farið var í rannsóknina. Vincent Tchenguiz fagnaði úrskurði dómarans og sagðist hlakka til að sjá loksins hvað það var sem Grant Thornton sýndi SFO.