Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir í samtali við Viðskiptablaðið að útboðið til kaupa á aflandskrónum sem fram fór í dag beri ekki vitni  um óheyrilegan þrýsting eða einhverja örvæntingu aflandskrónueigenda til þess að losna við krónurnar sínar. Haldi sú þróun áfram séu það ekki slæm tíðindi en það þurfi þó fleiri útboð til þess að draga ályktanir.

Már segir að þátttakan hafi að hans mati verið góð, til stóð að kaupa krónur fyrir að hámarki 15 milljarða en niðurstaðan var um 13,4 milljarðar. Þátttakan hafi verið fjórföld sem sé til marks um áhuga á ferlinu.

Það er að hans sögn athyglisverð að bæði lágmarksverð og meðalverð séu fyrir neðan gengi á aflandsmarkaði sem síðast var 227 krónur/evru. Sá markaður hafi hins vegar verið þunnur og spurning hversu marktækur hann sé. Markmiðið með útboðinu hafi hins vegar öðrum þræði verið að færa aflandsgengi nær álandsgengi. Aðspurður segir Már að ekki hafi verið miðað við neitt markgengi. „Verðið varð bara að verða það sem það varð."