Willie Walsh forstjóri IAG, móðurfélags British Airways segir að hann beri fullt traust til Alex Cruz forstjóra BA. Þetta sagði Walsh í fyrsta viðtalinu sem hann hefur veitt eftir tæknibilun í bókunarkerfi breska flugfélagsins varð þess valdandi að aflýsa þurfti yfir 600 flugferðum.

Sagði Welsh að British Airways hefði gert allt sem að í þeirra valdi stæði til að koma flugáætlun sinni aftur á stað eins fljótt og hægt var. Efaðist hann um að einhver hefði getað unnið betra starf í þessum aðstæðum en Cruz. Þá bað hann einnig viðskiptavini flugfélagsins afsökunar og sagði að félagið myndi gera allt sem í þeirra valdi stæði til að bæta upp þann skaða sem flugfélagið hafði valdið.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í vikunni reikna greiningaraðilar með því að bilunin gæti kostað BA um 111 milljónir evra. Greindi fyrirtækið frá því í gær að allt benti til þess að ástæðu bilunarinnar mætti rekja til þess að rafmagn hafi farið af gagnaverum fyrirtækisins í Bretlandi.