*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Innlent 26. október 2021 18:03

Ber hugmyndir undir borgarbúa

Hildur Björnsdóttir leggur hugmyndir sínar í dóm borgarbúa, meðal annars hvort lækka eigi fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Aðsend mynd

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, setti í dag af stað herferðina Geyma eða gleyma? Þar kynnir hún þrjátíu fjölbreyttar hugmyndir að betri, fjölskylduvænni og skemmtilegri höfuðborg. Hugmyndirnar munu birtast á komandi dögum og borgarbúum gefast kostur á að segja skoðun sína, hvort hugmyndunum skuli gleyma eða þær geyma. Þetta kemur fram í tilkynningu.  

Þar segir að Hildur hafi í dag kynnt hugmyndir um daggæslu á stærri vinnustöðum. Hún segir borgina vel geta veitt stærri vinnustöðum stuðning og sveigjanleika til að opna daggæslu fyrir börn starfsmanna. Þannig megi fjölga valkostum og styðja betur við foreldra sem eiga í erfiðleikum með að komast aftur á vinnumarkað í kjölfar barneigna, vegna skorts á leikskólaplássum og fækkunar í stétt dagforeldra.

Atvinnurekendur geti jafnframt notið góðs af úrræðinu enda verði auðveldara að endurheimta starfsfólk að loknu fæðingarorlofi, og foreldrar þurfa síður að fara snemma úr vinnu til að sækja börn um langan veg í lok vinnudags.

Jafnframt leggur Hildur í dóm borgarbúa hvort reisa eigi styttu af Hallveigu Fróðadóttur, fyrstu landnámskonunni á Arnarhóli og hvort lækka eigi fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Atkvæðagreiðslan fer fram á nýrri vefsíðu Hildar.