Færeyska fyrirtækið Fishfacts býður nú upp á þjónustuna Fishfacts Analytics, þar sem á einfaldan hátt má greina fiskiðnaðinn Í Færeyjum, Íslandi, Noregi, Danmörku Svíþjóð og Grænlandi. Nýja þjónustan hefur verið kynnt á netfundi, þar sem færeyskir og erlendir bankar, greiningafyrirtæki og fjárfestar tóku þátt. Þar má nefna Rabobank, DNB, Nordea Markets, Carnegie og fleiri.

„Þetta er gríðarlegur áfangi. Ég hef unnið við ráðgjöf og greiningu í sjávarútvegi í áratugi og veit því hve tímafrekt það getur verið að nálgast mikilvægar upplýsingar um fiskiðnaðinn. Með Fishfacts Analytics tekur það aðeins nokkrar sekúndur að sækja allar umbeðnar upplýsingar,” segir Óli Samró, framkvæmdastjóri Fishfacts.

„Með því að nýta sér þjónustu okkar er auðvelt og einfalt að sjá ársreikninga og lykiltölur og fleira. Jafnframt er hægt að bera saman félög í tilteknu landi og milli landa og eftir tegund vinnslu, til dæmis hvernig færeysk uppsjávarfyrirtæki standa gagnvart dönskum og norskum fyrirtækjum í sömu vinnslu.

Fishfacts Analytics er ævistarf mitt, sem nú verður aðgengilegt á netinu á einfaldan og þægilegan hátt. Grunnurinn byggir á umfangsmiklum upplýsingum og þekkingu sem ég viðað að mér á starfsævinni. En það er einnig mikilvægt fylgjast með þróuninni og því sem er nýjast hverju sinni. Þú færð það sem þú þarf aðeins með einu „klikki“.“

Þó þjónusta Fishfacts Analytics hafi nú verið kynnt opinberlega hefur hún verið aðgengileg fyrr. Fyrrverandi markaðsgreinir hjá Nordea Markets, Kolbjørn Giskeødegård, segist ánægður með þjónustuna.

„Fishfacts Analytics sparar tíma og fyrirhöfn við leit að upplýsingum um fiskiðnaðinn og gefur betri yfirsýn en áður hefur verið hægt með torveldari hætti,“ segir Giskeødegård.

Það eru feðgarnir Hanus og Óli Samró, sem eiga og reka færeysku gagnaveituna Fishfacts, sem einnig veitir tæknilegar lausnir fyrir sjávarútveginn og býður upp á skipaskrá fyrir allan heiminn.