*

mánudagur, 8. mars 2021
Innlent 22. febrúar 2021 13:02

Bera brigður á ákvörðun PFS

Að mati Félags atvinnurekenda felur nýleg ákvörðun PFS, um að Póstinum beri að fá 509 milljónir króna, í sér ríkisstyrkta samkeppni.

Jóhann Óli Eiðsson
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri FA.
Aðsend mynd

Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) „skýtur föstum skotum á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis“ að mati Félags atvinnurekenda (FA) í nýrri ákvörðun sinni um framlag til Íslandspósts (ÍSP) fyrir alþjónustu árið 2020. Með fyrrnefndri ákvörðun var ákveðið að Pósturinn skyldi fá 509 milljónir króna frá eiganda sínum fyrir að sinna þjónustunni en sú ákvörðun er harðlega gagnrýnd af FA.

Sagt var frá ákvörðuninni á vef Viðskiptablaðsins fyrir helgi en þar kom meðal annars fram að félagið fær 126 milljónir króna vegna ákvæðis póstþjónustulaganna um „eitt land, eitt verð“. Sú breyting kom inn eftir breytingu þingnefndarinnar á frumvarpinu. Þá fær ÍSP 181 milljón króna fyrir að sinna þjónustu á köldum markaðssvæðum en undir þá skilgreiningu falla aðeins höfuðborgarsvæðið, Reykjanesbær, Akranes, Borgarnes, Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík, Egilsstaðir, Selfoss, Hveragerði og Vestmannaeyjar. Sendingar í önnur póstnúmer eru samkvæmt mati PFS ekki háðar samkeppni.

„Félag atvinnurekenda ber brigður á ákvörðunina og telur að stjórnvöld geti ekki látið viðgangast að ríkisfyrirtækið undirverðleggi pakkaflutninga og grafi þannig undan rekstri keppinauta um allt land,“ segir í tilkynningu frá FA. Vekur það athygli FA að hvergi í ákvörðun PFS sé vikið að ákvæðis póstþjónustulaganna um að gjaldskrá skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Stjórnvöld verði að grípa í taumana

„Þvert á móti virðist PFS fallast á rök Póstsins um að það að láta gjaldskrána taka mið af meðalverði um allt land myndi fela í sér „arðránsmisnotkun“ á höfuðborgarsvæðinu af því að þá væri verið að láta viðskiptavini þar niðurgreiða þjónustu við notendur á landsbyggðinni. Stofnunin telur að sú staða hefði mögulega komið upp að verið væri að „okra“ á höfuðborgarsvæðinu. Þá virðist þó horft framhjá því að gjaldskrá fyrir bréfasendingar Póstsins hefur um árabil verið sú sama um allt land og jafnframt eru viðtakendur pakkasendingar frá Evrópuríkjum látnir greiða sama aukagjald og viðtakendur sendinga frá Kína til að greiða niður meint tap Póstins af síðarnefndu sendingunum,“ segir í tilkynningunni.

PFS bendir aftur á móti á ákvörðun þingnefndarinnar og segir að nefndin hafi ekki gætt að því að breytingin fæli í sér auknar greiðslur úr ríkissjóði án þess að gert væri ráð fyrir henni í fjármálaáætlun. FA bendir einnig á að á umræddum svæðum, sem Pósturinn fær 181 milljón króna fyrir að sinna alþjónustu á, starfi fjöldi einkaaðila sem þurfi nú að berjast við ríkisstyrkta samkeppni. Enn fremur segir í tilkynningunni að stjórnendur Póstsins hafi tekið þá viðskiptalegu ákvörðun að halda úti fimm daga þjónustu á þessum stöðum, þrátt fyrir að alþjónustuskyldan kveði aðeins á um tveggja daga þjónustu. Sú ákvörðun sé til að mæta samkeppni frá einkafyrirtækjum á viðkomandi svæðum.

„Við teljum þessa ákvörðun um 307 milljóna króna niðurgreiðslu skattgreiðenda á undirverðlagningu þjónustu Póstsins með miklum ólíkindum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Staðan er nú sú að stofnunin sem á að hafa eftirlit með póstmarkaðnum fellst á að undirverðlagning, sem bitnar hart á vörudreifingarfyrirtækjum um allt land, sé fjármögnuð úr sjóðum almennings. Ef þessi ákvörðun PFS stendur er stofnunin búin að skuldbinda ríkið til að greiða milljarða króna á komandi árum. Það getur ekki verið að samgönguráðherra eða Alþingi ætli að láta þetta viðgangast. Stjórnvöld verða einfaldlega að taka í taumana.“

Stikkorð: Íslandspóstur