Aztiq Pharma Partners er félag sem beint og óbeint átti hlut í félagi í Lúxemborg sem var eigandi að tæplega 30% hlut í Alvogen. Aztiq Pharma Partners var síðan selt til Aztiq Pharma ehf. fyrir upphæð að hámarki 1,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í matsgerð sem unnin var að beiðni Matthíasar Johannessen í málaferlum hans við Róbert Wessman, Árna Harðarson og Magnús Jaroslav Magnússon. Samkvæmt ársreikningi félagsins í Lúxemborg var 30% eignarhluturinn í Alvogen metinn á 9,3 milljarða króna.

Matthías hefur stefnt þremenningunum í nokkrum málum. Saman stofnuðu þeir fjórir Aztiq Pharma Partners árið 2009 og var tilgangurinn eignarhald og rekstur lyfjafyrirtækis. Róbert átti 94% hlut en aðrir átti 2% hlut hver. Þegar gengið var frá samningum keypti Árni hlut Róberts með viðauka sem dagsettur var samdægurs. Matthías stefndi þremenningunum vegna forkaupsréttar sem hann taldi sig hafa og fór málið fyrir Hæstarétt. Í dómnum kemur fram að stofnast hefði til forkaupsréttar Matthíasar á grundvelli ákvæðis í samþykktum félagsins. Einnig kom fram í dómnum að að ekki hefði verið skrifað undir viðaukann samdægurs og því litið á kaupin og viðaukann sem tvo ólíka samninga. Málferlin framundan snúa því meðal annars að skaðabótum vegna sölunnar á Alvogen hlutnum á 1,5 milljón og Matthías fer einnig fram á að félaginu Aztiq Pharma Partners verði slitið.

Árni Harðarson, sem hefur verið í forsvari fyrir Salt Investment ehf. og Aztiq Pharma Partners ehf., segir að nauðsynlegt hafi verið að skera úr um málið fyrir dómstólum. Um þennan málarekstur í heild segir Árni í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins: „Ég hef upplifað þetta mál sem hálfgerða fjárkúgun af hálfu Matthíasar. Í mínum huga hafði hann ekki trú á fjárfestingunni í Alvogen og í framhaldinu seldi hann bæði sálu sína og upplýsingar til Actavis/Novator sem staðfestist í því að hann vildi ekki skrifa undir að láta ekki af hendi upplýsingar um Alvogen sem hann tók með sér við starfslok. Mér skilst að hann hafi tekið starf þar gegn ríflegum launum sem „Head of Remuneration“ í byrjun sem er ekki beint á hans sérsviði þó titill hans hafi síðar breyst. Hann hefur stöðugt viljað fá pening greiddan úr hendi okkar og gekk svo langt að hóta því munnlega í áheyrn minni og Róberts Wessman að hann sem sonur ríkislögreglustjóra ætti ekki erfitt með að koma af stað rannsókn á okkur (Alvogen, Salt Investments, Róbert og Árna). Þegar við höfum ekki viljað greiða honum pening hafa frekari málshöfðanir lögmanns hans (sem er Reimar Pétursson lögmaður Novator í nokkrum málum milli Róberts og Novator) meðal annars snúist um að reyna að ógilda ársreikninga, ákvarðanir á hluthafafundum og hvaðeina annað sem honum hefur dottið í hug og mér finnst fyrst og fremst snúast um að skaða félagið eins og honum er frekast mögulegt. Þetta er náttúrulega bara mín upplifun af þessum málssóknum sem mér finnst eiga sér stoð í öllum gögnum málsins.“

Matthías vísar þessum ásökunum á bug í yfirlýsingu til Viðskiptablaðsins. „Ég hef í mörg ár þurft að gæta hagsmuna minna vegna ráðstafana fyrrum félaga minna. Meðal annars hef ég ítrekað þurft að bera mál undir dómstóla til að gæta réttar míns. Ég hef alla tíð lagt mig fram um að vanda mál mitt gagnvart dómstólum og forðast að skiptast á stóryrðum við fyrrum félaga mína. Þeir hafa nú kosið að koma fram á opinberum vettvangi með rangmælum. Þau dæma sig sjálf.“

Aztiq
Aztiq
© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.