Kallað hefur verið eftir því, meðal annars í sölum Alþingis, að lífeyrissjóðirnir taki þátt í þeim leiðum sem stjórnvöld fara til að vinna á skuldavanda heimila. Þegar unnið var að gerð 110% leiðarinnar var það gagnrýnt að erfiðasti samningsaðilinn hafi verið forsvarsmenn lífeyrissjóðanna.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir í viðtali við Viðskiptablaðið afstöðu lífeyrissjóðanna þá að mjög óeðlilegt sé að þeir taki sama skerf og þeir sem meiri áhættu tóku fyrir hrun. „Lífeyrissjóðirnir lánuðu flestir ekki meira en 65% af matsvirði eigna. Á árinu 2006 fá þeir heimild til að fara í 75%, en það var minnihluti sem nýtti sér það. Hins vegar ruku bankarnir af stað og buðu 90% lán. Á þeim tíma var ljóst að þetta gengi aldrei upp og myndi valda fasteignaverðbólgu. Það heyrðust varrúðarraddir víða. Eigi að síður hleypur Íbúðalánasjóður strax á eftir, býður 90% lán og endurfjármagnar meira að segja lánin fyrir bankana. Bankarnir og Íbúðalánasjóður voru þannig stærstu þátttakendur í að þenja fasteignabóluna, og tóku mun meiri áhættu en lífeyrissjóðirnir,“ segir Þórey.

Vegna þessa telja sjóðirnir það óeðlilegt að þeir taki á sig sömu niðurfellingu. Það skýri þann trega sem var þegar 110% leiðin var mótuð og síðan samþykkt. „Það er þó eðlilegt að lífeyrissjóðir komi að þessari leið, sem og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu sem er nú til umræðu. Lífeyrissjóðirnir vilja ólmir finna leiðir til að fjármagna þá leið fyrir ríkið með einhverjum hætti, aðra en með skattlagningu. Ég vona að það takist.“

Ítarlegt viðtal við Þóreyju má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.