Berghildur Erla Bernharðsdóttir
Berghildur Erla Bernharðsdóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Berghildur Erla Bernharðsdóttir hefur verið valin úr hópi 40 umsækjenda til að taka við stöðu kynningarstjóra Listasafns Reykjavíkur. Staðan var auglýst laus til umsóknar í lok október og þótti Berghildur uppfylla best umsækjenda þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið.

Fram kemur í tilkynningu frá safninu að Berghildur hefur umtalsverða reynslu af verkefnastjórn og  kynningar- og markaðsstörfum. Hún var upplýsingafulltrúi hjá Arion banka og upplýsingafulltrúi fyrir Þjóðfund 2010 og Stjórnlagaráð.

Berghildur starfaði um árabil á fjölmiðlum m.a. sem ritstjóri og frétta- og dagskrárgerðamaður hjá RÚV. Síðustu misseri hefur hún starfað sem verkefnisstjóri á Menningar-og ferðamálasviði.

Berghildur lauk meistaragráðu í blaða-og fréttamennsku frá Háskóla Íslands árið 2008. Hún er jafnframt með próf í hagnýtri fjölmiðlun og B.A. í félags- og viðskiptafræði frá sama skóla. Berghildur er með burtfararpróf frá Nýja tónlistarskólanum.

Fráfarandi kynningar- og markaðsstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur er Soffía Karlsdóttir sem hefur starfað hjá safninu frá árinu 2000. Hún hefur tekið við stöðu sviðsstjóra menningar- og samskiptasviðs hjá Seltjarnarnesbæ.