Berglind Björk Hreinsdóttir hefur verið ráðin í starf ráðgjafa hjá Attentus – mannauði og ráðgjöf. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Attentus hefur um árabil unnið ýmsar kannanir, úttektir og greiningar fyrir viðskiptavini og mun Berglind stýra frekari þróun þessara afurða. Hún kemur til Attentus frá Hagstofu Íslands þar sem hún var deildarstjóri gagnasöfnunar. Áður starfaði hún sem sérfræðingur í launarannsóknum hjá Kjararannsóknarnefnd. Þá situr Berglind í stjórn faghóps um verkefnastjórnun hjá Stjórnvísi.

Berglind Björk lauk MPM námi í verkefnastjórnun frá Háskóla Íslands, hefur IPMA vottun á C stigi og er vottaður Scrum master. Hún hefur BA gráðu í sálfræði og félagsráðgjöf frá sama skóla, diplomu í mannauðsstjórnun frá Endurmenntun Háskóla Íslands og er að ljúka námi í straumlínustjórnun frá Opna háskólanum í Reykjavík.