*

föstudagur, 28. janúar 2022
Fólk 4. september 2018 11:10

Berglind og Hannes ráðin til Öskju

Berglind G. Bergþórsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri Öskju og Hannes Strange sölustjóri Mercedes-Benz atvinnubíla.

Ritstjórn
Berglind G. Bergþórsdóttir og Hannes Strange hafa verið ráðin til Bílaumboðsins Öskju.
Aðsend mynd

Berglind G. Bergþórsdóttir og Hannes Strange hafa verið ráðin til Bílaumboðsins Öskju. Berglind hefur verið ráðin mannauðsstjóri Öskju og Hannes sölustjóri Mercedes-Benz atvinnubíla.

Berglind starfaði sem mannauðsstjóri Hafnarfjarðarbæjar áður en hún færði sig yfir til Öskju. Hún var áður mannauðstjóri RÚV  og mannauðsráðgjafi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Einnig hefur hún sinnt stundakennslu í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Hún er með MA í mannauðsstjórnun frá HÍ og BA í spænsku frá Kaupmannahafnar Háskóla. Berglind er gift Daða Þór Veigarssyni, framkvæmdastjóra hjá Öryggismiðstöðinni, og eiga þau tvær dætur, 17 og 24 ára.

Hannes starfaði sem sölustjóri innflutnings hjá Smyril Line Cargo áður en hann færði sig yfir til Öskju. Hann var áður viðskiptastjóri hjá söludeild áætlanaflutninga Eimskip. Áður starfaði Hannes hjá DHL Express á Íslandi og þar áður hjá Bílheimum/Ingvari Helgasyni. Hann er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og stundaði einnig nám við Háskóla Íslands í stjórnmálafræði. Hannes  er giftur Bryndísi Björnsdóttur, tanntækni hjá Útlitslækningu, og eiga þau þrjú börn á aldrinum 19 til 30 ára.

Bílaumboðið Askja er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu á bifreiðum frá Mercedes-Benz og Kia. Hjá fyrirtækinu starfa um 120 manns. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Krókhálsi 11 en þar er meðal annars að finna fullkomin bílaverkstæði, varahlutaþjónustu og sýningarsal fyrir Mercedes-Benz og Kia fólksbifreiðar. Húsnæði Mercedes-Benz atvinnubifreiða er að Fosshálsi 1. Kia mun síðan flytja í nýtt og glæsilegt hús að Krókhálsi 13 innan skamms.

Stikkorð: Askja