Framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur ráðið inn þær Berglindi Pétursdóttur og Ingu Óskarsdóttur. Berglind mun starfa hjá fyrirtækinu sem viðskiptatengill og hugmyndasmiður en Inga í handritsgerð, framleiðslu og leikstjórn. Hartnær 400 manns sóttu um stöðurnar sem auglýstar voru til umsóknar fyrr á árinu segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Berglind  Pétursdóttir kemur til Tjarnargötunnar frá auglýsingastofunni ENNEMM en þar hafði hún starfað m.a. sem hugmyndsmiður og sérfræðingur á samfélagsmiðlum. Hún hefur jafnframt sinnt ritstjórnarstörfum og dagskrárgerð í sjónvarpsþættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV.

Áður hefur hún starfað sem pistlahöfundur hjá Fréttablaðinu, hugmynda- og textasmiður hjá Íslensku auglýsingastofunni og sjálfstætt starfandi. Berglind hefur störf hjá Tjarnargötunni 1. maí n.k.

Inga Óskarsdóttir útskrifaðist af handrita- og leikstjórnardeild Kvikmyndaskóla Íslands í desember á síðasta ári. Þar vann hún m.a. verðlaun fyrir bestu útskriftarmyndina.  Inga hefur þegar hafið störf hjá Tjarnargötunni.

„Það er sannarlega mikill fengur fyrir fyrirtækið að fá þær Berglindi og Ingu. Bæði mun Inga koma inn sem framleiðandi og er hún nú þegar farin að láta taka til sín sem aðstoðarleikstjóri, en það einmitt mikil vöntun eftir konum í leikstjórastöður á Íslandi,“ segir Einar Ben, framkvæmdastjóri og annar eigandi fyrirtækisins.“

„Reksturinn gengur vel en mikill vöxtur hefur verið á milli ára hjá okkur án þess þó að við höfum fjölgað starfsfólki. Við erum þó á þeim stað að við einfaldlega þurfum að bæta við fólki til anna eftirspurn - enda erum við vel bókuð fram í tímann sem og að við erum að breyta og bæta við þjónustuliðum í rekstri okkar til að betur mæta breyttu landslagi í framleiðslu, birtingum á net- og samfélagsmiðlum, stafrænu PR-i sem og öðrum markaðsaðgerðum þar sem sögu- og efnissköpun kemur við sögu.“

Tjarnargatan er framleiðslufyrirtæki sem hefur verið starfrækt frá árinu 2011, en fyrirtækið segist vera leiðandi aðili í efnis- og sögusköpun á Íslandi.  Hjá fyrirtækinu starfa hugmyndasmiðir, leikstjórar, tökumenn, aðilar í allri eftirvinnslu og grafík sem og teymi sem tryggir besta notkun og sýnileika á öllu efni sem skapað er að því er segir í fréttatilkynningunni.