Forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, Berglind Rán Ólafsdóttir, tekur tímabundið við starfi framkvæmdastjóra ON en ekki forstöðumaður tækniþróunar, eins og áður var tilkynnt, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún kom til starfa hjá Orku náttúrunnar fyrir ári og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu.

Sagt var frá því síðastliðinn fimmtudag að Bjarni Már Júlíusson hefði verið rekinn úr starfi framkvæmdastjóra vegna óviðeigandi framkomu gagnvart samstarfsfólki. Þá var jafnframt sagt að Þórður Ásmundsson, forstöðumaður tækniþróunar, tæki við starfinu til bráðabirgða.