*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 6. mars 2015 14:17

Bergsson opnar í húsi Sjávarklasans

Í lok apríl mun Bergsson opna í húsi Sjávarklasans þar sem mikil áhersla verður lögð á fisk á matseðlinum.

Edda Hermannsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Veitingastaðurinn Bergsson mun í byrjun apríl opna í húsi Sjávarklasans en Bergsson mathús opnaði í Templarasundi sumarið 2012. Þórir Bergsson, eigandi Bersson, segir undirbúning vera í fullum gangi. „Þetta verður hádegisverðarstaður en svo ætlum við að bjóða upp á „happy hour“ eftir vinnu á fimmtudögum og föstudögum ef það verður stemning fyrir því. Svo er hægt að leigja staðinn fyrir smærri og stærri hópa á kvöldin.“

Það var að frumkvæði stjórnenda Sjávarklasans að veitingastaðurinn opnaði á þessum stað. „Þeir vilja gera meira úr húsinu annað en að vera skrifstofuhúsnæði. Þarna er líka yndislegt og frábært útsýni. Þetta er góður vettvangur til að gera svona hádegisstað og það vantar meira svona.“

Maturinn á nýja staðnum verður með svipuðu móti og fólk þekkir úr Templarasundinu en enn meiri áhersla verður á fisk á matseðlinum. Samhliða opnuninni verður meira lagt upp úr kvöldunum á Bergsson mathúsi í Templarasundi þar sem meira verður um viðburði. Þórir hefur fengið Ólaf Örn Ólafsson matreiðslumann til liðs við sig til að taka þátt í þeim breytingum.

Stikkorð: Bergsson