Bergþór Ólason.
Bergþór Ólason.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bergþór Ólason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Loftorku í Borgarnesi, en hann hefur verið fjármálastjóri fyrirtækisins í rúm fimm ár. Hann tekur við starfinu af Óla Jóni Gunnarssyni sem hefur ákveðið að láta af störfum næstu áramót. Skessuhorn greinir frá þessu.

Bergþór og Óli eru feðgar og er félagið í eigu þeirra. Óli mun hins vegar ekki hætta alfarið störfum fyrir fyrirtækið heldur mun hann áfram sinna margþættum verkefnum.

Bergþór er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur undanfarin misseri lagt stund á MBA nám við Manchester Business School. Áður starfaði hann meðal annars á fjármálamarkaði og sem aðstoðarmaður ráðherra.

„Ástand á þeim markaði sem við störfum á er jafnt og þétt að batna, verkefnum að fjölga og þau eru að stækka. Það er í mörg horn að líta í jafn umfangsmiklum og fjölbreyttum rekstri og hér er stundaður og ég held að enginn álasi karli föður mínum að vilja geta haft örlítið meira svigrúm en undanfarna áratugi. Starfsmannahópurinn hjá okkur er þéttur og góður og í honum býr gríðarleg reynsla í framleiðsu forsteyptra eininga, röra og blautsteypu. Ég er bjartsýnn á framhaldið og sannfærður um að hér muni félagið styrkjast jafnt og þétt á næstu misserum,“ segir Bergþór í samtali við Skessuhorn.