Íslandsstofa hefur ráðið tvo nýja forstöðumenn sem taka við nýjum sviðum í kjölfar skipulagsbreytinga. Bergþóra Halldórsdóttir stýrir nýju sviði viðskiptaþróunar og Karl Guðmundsson stýrir sviði útflutnings. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Bergþóra kemur til Íslandsstofu frá Samtökum atvinnulífsins (SA) þar sem hún hefur undanfarin ár sinnt alþjóðasamstarfi fyrir hönd SA og umbótum á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Hún hefur einnig verið tengiliður atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar fyrir hönd SA, og sinnt þar ráðgjöf og samráði um málefni er varða hagsmuni íslensks atvinnulífs. Bergþóra hefur áður starfað með Íslandsstofu í vörumerkjadeilunni við smásölukeðjuna Iceland, og vann að undirbúningi breytinga á lögum um Íslandsstofu og tengdri stefnumótun. Áður starfaði Bergþóra meðal annars hjá Samkeppniseftirlitinu og Embætti sérstaks saksóknara. Bergþóra er með meistaragráðu í alþjóðalögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk þess að hafa lokið viðbótargráðum í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands og frönsku frá Háskólanum í Aix-Marseille.

Nýtt svið viðskiptaþróunar mun þróa þjónustu Íslandsstofu við allar atvinnugreinar og fyrirtæki. Innan viðskiptaþróunar verður einnig byggð upp greiningareining sem mun sinna greiningum fyrir öll svið Íslandsstofu og eiga náið samstarf við stjórnsýsluna og atvinnulífið um greiningar og undirbúning stefnumótandi verkefna. Þá mun Viðskiptaþróun bera ábyrgð á stefnumótun Íslandsstofu og innleiðingu stefnu.

Karl kemur til Íslandsstofu frá lyfjafyrirtækinu Florealis þar sem hann gengdi stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs. Karl býr að víðtækri reynslu í sölu- og markaðsmálum, vörustjórnun og við uppbyggingu vörumerkja,hérlendis og á alþjóðavísu.  Hann starfaði um sjö ára skeið í Bandaríkjunumsem stjórnandi hjá alþjóðlegum heilbrigðistæknifyrirtækjum á borð við Össur, Biomet og Ekso Bionics. Karl er með MBA gráðu frá Rady School of Management, UCSD, auk þess sem hann hefur lokið B.Sc. gráðu í sjúkraþjálfun.

Hlutverk útflutningssviðs er að auka eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu hjá öllum útflutningsgreinum og greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi, hvort sem er á vörum eða þjónustu og á sviði skapandi greina. Sviðið vinnur náið með atvinnulífinu og stjórnvöldum við að móta verkefni, kortleggja markaði, greina tækifæri og móta skilaboð út á markaði. Innan sviðsins eru þarfir og möguleikar hverrar útflutningsgreinar skoðaðar sem og mögulegar aðgerðir varðandi erlent markaðsstarf og hvernig Íslandsstofa getur stutt við þær.

„Við erum mjög ánægð að fá þau Bergþóru og Karl til liðs við okkur og styðja þannig við nýtt skipulag sem við höfum nýverið innleitt. Þau koma með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu sem mun án efa nýtast íslenskum fyrirtækjum sem hyggja á landvinninga erlendis," segir Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Um Íslandsstofu

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda, um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Ísland. Hlutverk Íslandsstofu er að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf til að greiða fyrir útflutningi vöru og þjónustu, laða til landsins erlenda ferðamenn og fjárfestingu, með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál.

Íslandsstofa styður við kynningu á íslenskri menningu, vörum og þjónustu erlendis og vinnur tillögur að langtímastefnumótun atvinnulífs, hagsmunasamtaka og stjórnvalda og hrindir þeirri stefnumótun í framkvæmd.