Hótel Saga og Bændahöllin sóttu um greiðsluskjól vegna tekjufalls sökum faraldursins í byrjun júlí á síðasta ári. Í september sama ár greindi Viðskiptablaðið frá því að Hótel Saga hefði lokað þremur fjórðu af þeim 236 herbergjum sem er að finna innan veggja hótelsins. Nýtti hótelið sér greiðsluskjólið til þess að halda rekstrinum gangandi en þann 1. nóvember sáu stjórnendur sig nauðabeygða til þess að loka hótelinu.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, að greiðsluskjól Hótel Sögu renni út þann 7. júlí. Viðræður séu í gangi við tvo aðila, annars vegar áhugasama fjárfesta sem stefna á að reka áfram hótel í húsnæðinu, og hins vegar fjármálaráðuneytið um hugsanleg kaup ríkisins á húsnæðinu fyrir Háskóla Íslands.

„Það eru þessar tvær viðræður sem eru í gangi í augnablikinu. Það hafa margir sýnt þessu áhuga en yfirstandandi viðræður eru fyrstu alvöru viðræðurnar sem hafa farið af stað. Það er því smá ljós í myrkrinu eftir miklar hremmingar," segir hann. Ef svo fari að áhugasömu fjárfestarnir verði ofan á í viðræðunum muni Bændasamtökin þá væntanlega selja félagið utan um rekstur Hótel Sögu til þeirra.

Hann segir ljóst að viðræðurnar þurfi að hafa skilað árangri áður en 7. júlí rennur upp, því annars gæti hreinlega stefnt í gjaldþrot hótelsins. „Við erum að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að sú verði raunin."

Gunnar segir að greiðsluskjólsúrræðið hafi reynst hótelinu býsna vel. „Þetta úrræði hefur alveg bjargað helling fyrir okkur. Það hefði verið skelfilegt að vera í þeirri stöðu fyrir ári síðan að selja hótelreksturinn á brunaútsölu. Undanfarið hefur borið á aukinni bjartsýni innan ferðaþjónustunnar og það hjálpar okkur mikið - að það sjáist einhver glæta sem bendir til að ástandið fari að glæðast."

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .