Fjármálaþjónustufyrirtækið Berkshire Hathaway, sem Warren Buffett fer fyrir, hefur hækkað um ríflega fjórðung á árinu en aðeins í þrjú skipti á síðustu tveimur áratugum hefur það skilað hluthöfum sínum neikvæðri árlegri ávöxtun, að sögn greiningardeildar Kaupþings. Frá því að halla tók undan fæti á fjármálamörkuðum seinni hluta sumars hefur gengi bréfa í Berkshire Hathaway hækkað um 37% sem meðal annars er hægt að þakka góðu uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung þegar hagnaður félagsins jókst um 64% frá fyrra ári, segir greiningardeildin. Einn hlutur í Berkshire kostar um 138 þúsund dollara, jafnvirði 8,7 milljóna króna, og hefur 47-faldast í verði á 20 árum. Greiningardeildin segir að Buffett hafi verið iðinn við kolann á þessu ári og meðal annars fjárfest í Burlington Northern Santa Fe, öðru stærsta lestafyrirtæki Bandaríkjananna. Hann greindi frá því fyrr á þessu ári að hann væri tilbúinn að eyða allt að 60 milljörðum Bandaríkjadala í rétta fyrirtækið og nú um jólin var tilkynnt um kaup Berkshire á 60% hlut í Marmon Holdings fyrir um 4,5 milljarða Bandaríkjadala.