Úr opnuviðtali Viðskiptablaðsins við Pál Harðarson og Magnus Billing, forstjóra NASDAQ á Íslandi og Svíþjóð:

Talið berst að stjórnmálaumræðu á Íslandi. Í ár eru 25 ár liðin frá falli Berlínarmúrsins. Páll segir múrinn og muninn á milli vesturs og austurs á þeim tíma hafa verið stöðuga og áþreifanlega áminningu handa þeim sem töluðu gegn frjálsu markaðshagkerfi. Fæstum hafi á þeim tíma dulist hvort væri líklegra til að bæta lífsgæði almennings, viðskiptafrelsi vestursins eða miðstýring austursins. Þessi munur segir hann að mönnum sé hinsvegar ekki í eins fersku minni nú og hann var þá.

"Mér finnst í seinni tíð hafa gleymst að það skipti máli hvernig við skipuleggjum hagkerfið. Það er alltaf verið að hugsa um einhverjar beinar aðgerðir, að gera þetta og gera hitt. Við þekkjum það líka úr ráðstjórnarríkjunum að þannig átti að skapa hagvöxt, þangað til hann fjaraði bara út vegna þess að kerfið virkaði ekki. Ég held að rökin sem búa þar að baki byggi flest á ákveðnum misskilningi eða forsjárhyggju. Þau eru til þess fallin að höfða til ákveðinna hópa sem eru þannig staddir á hverjum tíma að þetta virkar sannfærandi. En menn eru þannig einfaldlega að binda ákveðnar atvinnugreinar í viðjar hins opinbera," segir Páll

„Við erum komin langt útfyrir öll mörk hvað það varðar og ég held að þvert á móti eigi afskipti hins opinbera af atvinnulífinu að minnka. Það þarf að draga úr niðurgreiðslum og kostnaði ríkisins og þá væri til meira fjármagn til þess að raunverulega hjálpa þeim sem þyrftu á því að halda. Þannig að ég held að það sé ákveðinn misskilningur og hræðsla við breytingar, hið óþekkta, sem er alltaf þáttur í þessu og hægir á svona breytingum," bætir hann við.