Danska dagblaðið Berlinske Tidende, sem stofnað var árið 1749 og er eitt elsta dagblað Evrópu, hefur ákveðið að minnka brotið á blaðinu úr breiðbroti (e. broadsheet) í slúðurblaðastærð (e.tabloid).

Berlinske greindi frá þessu í dag, en dagblaðið er í eigu Orkla Media. Fjarskipta- fjölmiðlasamstæðan Dagsbrún hefur áhuga á að kaupa Orkla Media, sem metið er á rúmlega 90 milljarða íslenskra króna.

Stjórnendur dagblaðsins segja að ákveðið hafi verið að minnka brotið til að koma til móts við danska dagblaðalesendur í ljósi þess að tvö fríblöð, sem dreift verður frítt til danskra heimila, eru væntaleg á markað.

Dótturfélag Dagsbrúnar, 365 Media Scandinavia, mun gefa út annað þeirra en hitt fríblaðið er mótsvar útgáfufélags Politiken og Jótlandspóstsins við Nyhedsavisen, dagblaði 365 Media Scandinavia.

Berlinske mun koma út í minna broti í ágúst og verður fyrst danskra dagblaða til að breyta brotinu. Bresku blöðin Independent og The Times hafa minnkað brotið vegna aukinnar samkeppni frá slúðurblöðum, sem vanalega eru gefin út í minna broti en önnur dagblöð og því auðveldari að lesa í almenningssamgöngum.