*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 13. nóvember 2011 14:34

Berlusconi ánægður með sig

Segist stoltur af því hvernig hann hafi staðið sig fyrir land og þjóð í skuldakreppunni.

Ritstjórn

Berlusconi, fráfarandi forsætisráðherra Ítalíu, segist vera stoltur af því hvernig hann hafi staðið sig fyrir land og þjóð í skuldakreppunni. Í bréfi sem hann sendi flokksfélögum í morgun segist hann vona að flokkurinn komist aftur til valda. Þetta kom fram í fréttum RÚV.

Forseti Ítalíu hóf í morgun að funda með helstu stjórnmálaleiðtogum landsins til að mynda nýja bráðabirgðastjórn eftir að Berlusconi baðst lausnar í gærkvöldi. Mikil fagnaðarlæti voru fyrir utan þinghúsið í Róm þegar Berlusconi gekk þar út eftir að neðri deild þingsins hafði, líkt og öldungadeildi, samþykkt frumvarp um niðurskurð og skattahækkanir til að mæta skuldavanda þriðja stærsta efnahagsveldsins á evrusvæðinu.

Berlusconi fór rakleiðis á fund Giorgio Napolitano, forseta. Talsmaður forsetans sagði að Berlusconi hefði beðist lausnar. Forsetinn hefði beðið hann og stjórn hans að sitja áfram meðan ný bráðabirgðastjórn yrði mynduð. Forsetinn myndi ráðfæra sig við helstu stjórnmálaleiðtoga í dag.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á götum Rómar. Í morgun, þegar ró hafði færst yfir ítölsku höfuðborgina, fóru stjórnmálamenn af stað og streymdu í forsetahöllina til skrafs og ráðagerða. Þar á meðal var Mario Monti, fyrrverandi fulltrúi í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.