Fullyrt er í fjölmiðlum að á sama tíma og leiðtogar heimsins reyndu að leysa vandmál lands hans á G20-fundinum í Cannes á föstudag í síðustu viku hafi Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, fengið sér blund.

Þegar Barack Obama, David Cameron, Nicholas Sarkozy og Angela Merkel ræddu um það hvernig komast mætti hjá því að Ítalía yrði næsta fórnarlamb skuldakreppunnar á evrusvæðinnu á Berlusconi að hafa dottað, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar.

„Menn hafa almennt áhyggjur af því að Berlusconi hafi ekki stjórn á hlutunum á Ítalíu. Hann sofnaði tvisvar á fundinum og það varð uppi fótur og fit hjá starfsmönnum hans,“ hefur breska dagblaðið Daily Mail eftir heimildarmanni sínum. Margir sérfræðingar telja að Berlusconi muni hrekjast frá völdum innan skamms, hugsanlega strax við atkvæðagreiðslu á ítalska þinginu um fjárlög ríkisins í dag.