Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, er sagður hafa komið tómhentur á neyðarfund leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims í Cannes í Frakklandi í dag. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og fleiri ráðamenn innan Evrópusambandsins, þrýstu á Berlusconi þegar þeir samþykktu björgunaráætlun fyrir Grikkland í síðustu viku að ríkisstjórn hans beiti sér fyrir því að koma skikkan á ríkisfjármálin og draga úr hallarekstri til að forða Ítalíu frá því að lenda í skuldafeni eins og Grikkland.

Ítalska dagblaðið Il Sole 24 Ore greindi hins vegar frá því í dag að ríkisstjórn Berlusconis hafi fundað í gærkvöldi og skellt í míní-útgáfu af björgunaráætlun fyrir ítalska ríkið. Þetta, að sögn blaðsins, er langt í frá sú viðamikla áætlun sem þjóðarleiðtogar ESB-ríkjanna vonuðustu til að sjá.

Fjármögnunarkostnaður Ítala rauk upp á ný í dag og hefur ekki verið hærri í rúman áratug.

Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, spáði fyrir um það í vikunni að Ítölum mistakist að auka tiltrú fjárfesta á landinu, við það muni fjármögnunarkostnaðurinn rjúka upp úr öllu valdi, landið lenda í greiðslufalli og viðskiptavinir taka sparifé sitt úr bönkum landsins. Í kjölfarið munu Ítalir kasta evrunni fyrir róða og taka ítölsku líruna upp sem þjóðargjaldmiðil á nýjan leik.