Silvio Berlusconi nýtur ekki lengur trausts meirihluta þingmanna á ítalska þinginu. Stjórn Berlusconis tókst í dag að koma í gegnum þingið mikilvægu frumvarpi um ríkisfjármál, en aðeins vegna þess að stjórnarandstaðan sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Þingmenn á ítalska þinginu eru alls 630 talsins, en aðeins 308 greiddu atkvæði með frumvarpinu. Hins vegar sat 321 þingmaður hjá, þar á meðal nokkrir þingmenn stjórnarflokkanna. Krafan um afsögn Berlusconi fékk því byr undir báða vængi og ítrekaði leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Pierluigi Bersani, þessa kröfu í dag.

Markaðir gleðjast

Fjárfestar virðast hafa tekið ágætlega í niðurstöður kosninganna á ítalska þinginu. Helstu hlutabréfavísitölur stigu upp á við eftir lélegt gengi í síðustu viku og fremur dauft upphaf í þessari viku. Dow Jones-vísitalan í Bandaríkjunum stendur svotil í stað, með 0,04% hækkun, Nasdaq-vísitalan hefur hækkað um 0,16% og S&P 500-vísitalan hækkað um 0,09%.

Gleðin virðist öllu meiri á evrópskum hlutabréfamörkuðum en þar fer fljótlega að loka. FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur hækkað um 1,41%, Dax-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 1,13% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hækkað um 1,75%.