Hæstiréttur Ítalíu hefur staðfest niðurstöðu undirdómstóls um sýknu Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, af ákæru um kynferðislegt samneyti við ólögráða stúlku og misnotkun valds. BBC greinir frá málinu.

Upphaflega var Berlusconi sakfelldur á neðsta dómstigi landsins, en hann áfrýjaði dómnum og var sýknaður á næsta dómstigi þar fyrir ofan. Ákæruvaldið áfrýjaði niðurstöðunni til æðsta dómstigsins og krafðist þess að málið yrði tekið upp að nýju, en því hefur nú verið hafnað.

Berlusconi og hin 17 ára Karima El-Mahroug, sem hann var sakaður um að hafa átt samneyti við, neituðu því ávallt að hafa átt samræði. Dómurinn þýðir að nú hefur Berlusconi kost á að demba sér aftur í stjórnmál standi hugur hans til þess, en hann hefur nýlega lokið samfélagsþjónustu sem hann var dæmdur til að sinna vegna skattsvika.