© Getty Images (Getty)
Óhætt er að fullyrða að síðustu mánuðir hafa verið Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu erfiðir. Hann hefur ekki aðeins þurft að segja af sér sem forsætisráðherra þessa þriðja stærsta efnahagssvæðis Evrópu, heldur hefur hann einnig tapað tugum eða hundruðum milljarða króna.

Berlusconi, sem er 75 ára gamall, er í 118 sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims og þriðji ríkasti maður Ítalíu. Metur tímaritið eignir hans í dag á 6,2 milljarð dala, um 730 milljarða króna.

Í gegnum eignarhaldsfélag sitt og fjölskyldu sinnar, Fininvest , á hann 38,62% hlut í stærsta fjölmiðlafyrirtæki Ítalíu, Mediaset. Hlutbréf félagsins, sem er skráð í kauphöllinni í Mílanó, hafa lækkað um 51,77% á síðustu 6 mánuðum. Síðasta mánuðinn hefur gengið lækkað um 21%. Varastjórnarformaður og framkvæmdastjóri Mediaset er sonurinn Pier Silvio. Einnig á Fininvest knattspyrnufélagið AC MIlan, fjármálafyrirtækið Mediolanum, útgáfufyrirtækið Mondadori auk smærri félaga.

Berlusconi var ríkasti maður Ítalíu en missti þann titil árið 2008. Þá átti hann 9,4 milljarða dala samkvæmt Forbes. Hefur hann því tapað 3,2 milljörðum dala á rúmum þremur árum, um 380 milljörðum króna.

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.