Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að björgunaraðgerðir yfirvalda s.l. vetur hafi verið nauðsynlegar til að koma í veg fyrir aðra kreppu en þar vísaði hann til Kreppunnar miklu frá árinu 1929.

Þetta sagði Bernanke á ráðstefnu, sem opin var almenningi, í Kansas í Bandaríkjunum um helgina en sem kunnugt er settu bandarísk stjórnvöld, í samstarfi við seðlabankann þar í landi, upp sjóð sem ætlaður var til neyðarlána til handa bönkum og fjármálafyrirtækjum vestanhafs.

Enn eru rúmir 300 milljarðar dala eftir í sjóðnum en þá hafa yfirvöld þegar kynnt áætlanir um að verja um 1.000 milljörðum dala til kaupa á eitruðum veðum fjármálastofnana. Þá hafa yfirvöld varið um 3.000 milljörðum dala til að ýta við hagkerfinu, með beinum eða óbeinum hætti að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

„Ég ætlaði ekki að vera seðlabankastjórinn sem sæti yfir annarri kreppu,“ sagði Bernanke og vísaði þar sem fyrr segir til Kreppunnar miklu árið 1929.

Bernanke sagði að ef yfirvöld hefðu ekki komið fjármálastofnun til hjálpar hefði kerfið í heild sinni hugsanlega hrunið sem spilaborg með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það hefði orðið til þess að fyrirtæki, stór sem smá, hefðu lent í verulegum vandræðum, atvinnuleysi hefði stóraukist og landsmenn allir horft fram á mun erfiðari tíma en komið hefði á daginn.

Þá bætti Bernanke því við að nauðsynlegt væri að endurskoða regluverkið í kringum fjármála- og tryggingastarfsemi í Bandaríkjunum. Þannig ætti að endurskoða það hversu stórar einstaka fjármálastofnanir geti orðið.

„Það þyrfti að koma í veg fyrir að stofnanir verði það stórar að nær ómögulegt megi teljast að þær geti hrunið. Það hefur komið á daginn að engin fjármálastofnun er það stór að hún geti ekki hrunið og við þekkjum afleiðingarnar af því,“ sagði Bernanke.

Í fyrirspurnartíma sagðist Bernanke að hann hefði kosið að láta fjármálastofnanir eiga sig og það hefði ekki verið hans fyrsti kostur að seðlabankinn vestanhafs gripi inn í líkt og gert var.