Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir nauðsynlegt að bankinn grípi til allra þeirra tækja sem hann hafi yfir að ráða til að koma í veg fyrir að skuldakreppan á evrusvæðinu hafi neikvæð áhrif á bandarískt efnahagslíf.

Bernanke sat fyrir svörum hjá fjárlaganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Viðræður eru búnar að vera í fullum gangi á milli ráðamanna á Grikkland og sendifulltrúa Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kröfuhafa gríska ríkisins. Skuldadagar Grikkja renna upp í næsta mánuði þegar hluti af lánum hins opinbera verða á gjalddaga.

Útlit er fyrir mikinn niðurskurð á útgjöldum gríska ríkisins. Tugþúsundir grískra ríkisstarfsmanna eru því mótfallnir og logar Aþena, höfuðborg landsins, í mótmælum.

„Við erum í stöðugu sambandi við ráðamenn í Evrópu og munum fylgjast náið með gangi mála. Við munum grípa til allra ráða til að verja bandarískt fjármálakerfi og hagkerfið,“ sagði Bernanke.