Í vitnisburði fyrir nefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings um fjármálaþjónustu í gær varaði seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, við því að minnkandi verðbólguþrýstingur gæti verið aðeins tímabundinn, enda þótt hann ítrekaði fyrri skoðun sína um að á næstu mánuðum væri ekki ástæða til að hafa áhyggjur af slíkri þróun.

Bernanke sagði jafnframt að hagvöxtur myndi taka við sér á næsta ári þrátt fyrir samdrátt á fasteignamarkaði undanfarin misseri. Sérfræðingar telja að ummæli hans gefi til kynna að mestar líkur séu á óbreyttum stýrivöxtum í 5,25% á næstunni. Vextir seðlabankans hafa haldist óbreyttir núna í meira en eitt ár.