Stýrivextir verða áfram lágir í Bandaríkjunum ef marka má orð Bens Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Bernanke bar vitni fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings í síðustu viku og sagði að mikið atvinnuleysi og lág verðbólga gæfu fulla ástæðu til að halda stýrivöxtum lágum um óákveðinn tíma.

Þá sagði Bernanke jafnframt að bandaríska hagkerfið væri smám saman að ná bata. Hann ítrekaði þó fyrri orð sín um að bataferlið yrði langt og hægfara.

Frá því að lausafjárkreppan skall á í Banaríkjunum í desember 2007 hafa um 8,4 milljónir starfa tapast, sem er mesta fækkun starfa frá því í kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar.

Bernanke sagði að þarna væri um að ræða hringrás sem nauðsynlegt væri að stöðva, fyrirtæki sem kæmu illa út úr lausafjárkrísunni neyddust til að segja upp starfsfólki og fækkun starfa hefði aftur slæm áhrif á einkaneyslu (sem vegur um 2/3 af hagkerfi Bandaríkjanna) sem síðan bitnaði á fyrirtækjunum.

Nánar er fjallað um ummæli Bernanke og vaxtastefnu bandaríska seðlabankans í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu.