Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, sagði í gær að bankinn væri reiðubúinn til að lækka stýrivexti skarpt til að koma í veg fyrir hættu á samdrætti í þarlendu hagkerfi. Bandarísk hlutabréf hækkuðu mikið í kjölfarið, en í frétt Financial Times segir að ummælin hafi verið ákveðnari en komið hafi úr herbúðum seðlabankans hingað til.

Orðrétt sagði Bernanke: „Við erum reiðubúin til að grípa til umtalsverðra viðbótaraðgerða eins og þörf er á til að styðja við vöxt og veita viðbótartryggingar gegn lækkunaráhættu.“