Hluta- og skuldabréfamarkaðir hækkuðu talsvert í Bandaríkjunum á miðvikudaginn í kjölfar ávarps Ben Bernanke seðlabankastjóra til þingsins, en Bernanke var tiltölulega jákvæður í garð efnahagshorfa í landinu, segir í frétt Financial Times.

Í ávarpinu kom fram að hagvöxtur væri að ná sér á strik, verðbólga væri að hjaðna og að færri hættur steðjuðu nú að efnahagsstöðugleika, þessar lýsingar þóttu minna á efnahagsástand tíunda áratugarins sem kennt var við ævintýrapersónuna Gullbrá, þar sem efnahagurinn var hvorki of heitur né kaldur.

Bernanke var tiltölulega hófsamur í tali sínu varðandi verðbólgumál, en ítrekaði skoðun bankans að verðbólgan væri meira áhyggjuefni en hagvöxtur, án þess þó að gefa nokkrar vísbendingar um að bankinn hyggðist hækka stýrivexti á næstunni.

Þvert á móti gaf hann til kynna að núverandi vextir bankans yrðu óbreyttir í 5,25% um einhvern tíma er hann sagði: "Núverandi vaxtastefna mun líklega styðja við sjálfbæran hagvöxt og stuðla smám saman að verðbólguhjöðnun."
Þingmenn beggja flokka lýstu óspart yfir ánægju með störf Bernanke og ákvörðun hans um að stöðva hækkunarferli í júní á síðasta ári og stýra þar með efnahagnum í átt að mjúkri lendingu, segir í fréttinni.