Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir á bloggi sínu að skuldavandi Grikkja snúist miklu frekar um framtíð evrulandanna sem hagkerfis heldur en fjárhag gríska ríkisins. Hann leggur til að skilyrðin fyrir lánveitingum til Grikkja verði tengd við hagvöxt á evrusvæðinu, þannig að ef hagvöxtur í Evrópu reynist minni en spáð hefur verið verði Grikkjum leyft minna aðhald í ríkisfjármálum.

Bernanke ber saman þróun atvinnuleysis á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum. Á árunum 2009-2011 var atvinnuleysið svipað í þessum tveimur hagkerfum, en nú er atvinnuleysið á evrusvæðinu um 11% meðan það er 5,3% í Bandaríkjunum.

Of mikið aðhald hjá Þjóðverjum

Bernanke segir að slæm hagþróun í Evrópu hafi orsakast af þremur þáttum. Í fyrsta lagi hafi verið pólitísk mótstaða gegn því að ráðast í nógu miklar vaxtalækkkanir, í öðru lagi hafi ríkisfjármál í löndum á borð við Þýskaland einkennst af of miklu aðhaldi, og í þriðja lagi hafi ekki verið ráðist í nauðsynlegar aðgerðir til að auka traust á bankakerfinu.

Þá bendir Bernanke á að atvinnuleysi í Þýskalandi hafi lækkað á sama tíma og það hefur aukist annars staðar í Evrópu, sér í lagi í sunnanverðri álfunni.

Bernanke segir að Þjóðverjar verði að minnka viðskiptaafgang sinn, sem haldi aftur af hagvexti annars staðar á evrusvæðinu. Þeir geti gert það með því að auka eftirspurn Þjóðverja eftir vörum og þjónustu, til dæmis með launahækkunum eða opinberum útgjöldum.