Hagfræðingar og fjárfestar hafa þegar veðjað á 50 punkta vaxtalækkun bandaríska seðlabankans á mánudaginn. Hins vegar urðu fjárfestar á Wall Street fyrir vonbrigðum með ræðu Ben Bernanke á ráðstefnu í Berlín í gær, þar sem hann sneiddi framhjá því að viðra skoðanir sínar um efnahagsástandið vestanhafs og hugsanlegar vaxtalækkanir.

Bandarísk hlutabréf hækkuðu í fyrsta skipti í þrjá daga í gærmorgun sökum væntinga um að Ben Bernanke, seðlabankastjóri, myndi gefa til kynna í ræðu sinni að bankinn hygðist ráðast í vaxtalækkun næstkomandi mánudag. Þær vonir fjárfesta urðu aftur á móti ekki að veruleika: Umfjöllunarefnið í ræðu Bernanke einskorðaðist við vangaveltur um ójafnvægi í heimsbúskapnum. Hann sagði að þrátt fyrir að núverandi viðskiptahalli Bandaríkjanna væri "ekki sérstaklega mikil byrði" fyrir efnahag landsins, þá myndi slíkur ójöfnuður ekki ganga upp til lengri tíma. Enda þótt Bernanke hafi með ræðu sinni aukið enn frekar á þá óvissu sem ríkir á Wall Street um næstu stýrivaxtaákvörðun bankans héldu hækkanir á hlutabréfum þar í landi áfram eftir að ræðan birtist og á hádegi að bandarískum tíma höfðu hlutabréfavísitölur hækkað um tæplega eitt prósent.

Skiptar skoðanir innan bandaríska seðlabankans
Gengi Bandaríkjadals féll skarpt í gjaldeyrisviðskiptum í gær og stóð gengið nálægt sögulegu lágmarki gagnvart evrunni þar sem margir fjárfestar eru farnir að veðja á 50 punkta vaxtalækkun seðlabankans. Henrik Gullberg, gjaldeyrissérfræðingur hjá Caylon í London, rekur lækkun Bandaríkjadals meðal annars til þess að fjárfestar eigi í erfiðleikum með að ákvarða hvort - og hversu mikil - vandræðin í bandarísku efnahagslífi muni hafa áhrif fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði: Verði niðurstaðan sú að vandræðin muni að mestum hluta einskorðast við bandaríska hagkerfið myndi slíkt verða til þess að veikja Bandaríkjadal, en leiði hnerri Bandaríkjanna til smits á öðrum mörkuðum yrði slíkt til þess að ýta undir áhættufælni fjárfesta. Sú þróun myndi gera öruggar fjárfestingar á borð við Bandaríkjadal að vænlegum fjárfestingarkosti.

Ræða Bernanke kom einum degi eftir að aðrir háttsettir aðilar í stjórn seðlabankans höfðu viðrar skoðanir sínar um efnahagsástandið vestanahafs. Frederic Mishkin, einn af seðlabankastjórum Bandaríkjanna, tók undir ummæli Janet Yellen, forseta seðlabankans í San Fransisco, um að áframhaldandi umrót á fjármálamörkuðum gæti orðið til þess að drega verulega einkaneyslu almennings og leitt til enn frekari lækkana á húsnæðisverði. Fjármálaskýrendur töldu þau ummæli ýta undir þá skoðun margra fjárfesta um að bandaríski seðlabankinn myndi ráðast í 50 punkta vaxtalækkun.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.