Hlutabréfavísitölur lækkuðu um hálft prósent þegar markaðir opnuðu í Bandaríkjunum gærmorgun, meðal annars sökum misvísandi skilaboða sem bárust frá fjölmiðlum um hvort seðlabankinn myndi hefja vaxtalækkunarferli á næstu vikum. Ummæla Bernanke í dag er beðið með mikilli eftirvæntingu, en þá flytur hann sína mikilvægustu ræðu frá því hann tók við embætti fyrir nítján mánuðum.

Hlutabréfalækkanir á Wall Street í gærmorgun höfðu að mestum hluta gengið til baka um hádegi að bandarískum tíma, en lækkanirnar komu í kjölfar mikilla hlutabréfahækkana á miðvikudaginn - um tvö prósent - sem skýrðust einkum af bréfaskrifum Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, til öldungadeildarþingmannsins Charles Schumer sem voru gerð opinber í gær. Þar segir Bernanke meðal annars að seðlabankinn "fylgist náið með þróuninni" á fjármálamörkuðum og sé "reiðubúinn að grípa til aðgerða" ef þess þurfi, að því er Financial Times greinir frá. Að mati fjárfesta voru ummælin til marks um vilja seðlabankans til að hefja vaxtalækkunarferli í næsta mánuði sem gerði það að verkum að gengi hlutabréfa hækkaði mikið í verði eftir skarpar lækkanir á þriðjudaginn.

Í frétt Wall Street Journal er hins vegar dregið í efa að Bernanke ætlaði að hefja vaxtarlækkunarferli seðlabankans í "einhvers konar óðagoti", að því er blaðið hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Slíkt myndi senda röng skilaboð til fjárfesta; það er ekki verkefni seðlabankans að leysa fyrirtæki úr fjárhagsvandræðum sem þau eiga sjálf sök á því að hafa komið sér í. Blaðið segir að Bernanke sé mikið í mun að gera greinarmun á tveimur mismunandi sjónarmiðum bankans: Annars vegar að hræringarnar á fjármálamörkuðum verði ekki til þess að vega að grunnstoðum raunhagkerfisins og hins vegar mikilvægi þess að seðlabankinn grípi ekki til aðgerða sem yrðu til þess að fjárfestar myndu í kjölfarið halda áfram að vanmeta áhættu á fjármálamörkuðum.

Mikilvægasta ræða Bernanke
Heimildarmenn Wall Street Journal segja að Bernanke vilji hverfa frá þeirri arfleifð sem forveri hans í embætti, Alan Greenspan, skildi eftir; í valdatíð hans var það ríkjandi viðhorf á meðal fjárfesta á Wall Street að Greenspan myndi ósjálfrátt bregðast við óróa á fjármálamörkuðum með því að lækka stýrivexti bankans. Bernanke hyggst hins vegar segja skilið við þann vítahring. Þrátt fyrir að hann hafi brugðist við miklum hlutabréfalækkunum með því að lækka vexti á skammtímalánum til fjármálastofnana þann 17. ágúst, þá þýðir slíkt ekki að seðlabankinn muni í kjölfarið lækka stýrivexti sína - en margir fjárfestar hafa jafnvel reiknað með slíkri lækkun áður en fundur seðlabankans verður 18. september næstkomandi.