Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, sagði í vitnisburði fyrir bankanefnd öldungardeildar Bandaríkjaþings í gær, að hann teldi að gengi júansins hefði hækkað of lítið undanfarin misseri gagnvart Bandaríkjadal. Hann ítrekaði einnig skoðun sína um að sveigjanlegra júan myndi jafnframt þjóna kínverskum hagsmunum; með því að halda gengi kínverska gjaldmiðilsins of lágu væru stjórnvöld að skekkja markaðinn og reiða sig í of miklu mæli á kínversk útflutningsfyrirtæki.

Bernanke bætti því jafnframt við að þessi skipan mála væri í raun óbein niðurgreiðsla til kínverskra fyrirtækja sem eigi í samkeppni við önnur fyrirtæki á alþjóðlegum markaði.